Merki Í sambandi

Í sambandi

Sambands- og samskiptaráðgjöf

teikning af rafmagnssnúrum með klóm sem mætast næstum í miðjunni til að komast í samband. Snúran hlykkjast og myndar lítið hjarta.

Sambandsráðgjöf er oft kölluð pararáðgjöf eða hjónabandsráðgjöf. Ég tek aðallega á móti pörum en tek einnig á móti einstaklingum og öllum fjölskyldutegundum í samtalsmeðferð á stofunni minni í Lífsgæðasetri St. Jó, Hafnarfirði.

Bakgrunnur minn er á breiðu sviði ráðgjafar og sjálfstyrkingar, ég hef menntun og bakgrunn í fjölskyldufræði, náms- og starfsráðgjöf og félagsráðgjöf sem gagnast vel til að vinna með fólki í hvaða áskorunum sem lífið hefur upp á að bjóða.

Margrét Hanna stendur með bros á vör og opna arma.

Í vinnu minni legg ég áherslu á gagnreyndar aðferðir til þess að ná sem bestum árangri, en aðalatriðið er að mæta fólki og ná tengslum við það á þeim stað sem það er, byggja upp meðferðarsamband og finna lausnir í samvinnu við þá sem til mín leita.

Námskeið og fyrirlestrar

Ég hef mikið verið með námskeið og fyrirlestra í gegnum símenntunarstöðvar fyrir hópa sem eru að byggja sig upp fyrir nám eða störf eftir hlé. Ég tek einnig að mér að halda fyrirlestra fyrir vinnustaði og félagasamtök um ýmis málefni tengd samskiptum og sjálfstyrkingu.

Margrét Hanna

Um mig

Ég er fjölskyldufræðingur og náms- og starfsráðgjafi með fjölbreyttan bakgrunn úr námi og störfum.

Styrkleikar mínir og áhugi liggja á sviði samskipta og sambanda. Samskipti við annað fólk lita allt líf okkar og ef einhverjir hnökrar koma á þau í okkar nánasta umhverfi getur það haft mikil áhrif á alla þætti lífsins.

Menntun: Félagsráðgjöf BA, meistarapróf í Náms- og starfsráðgjöf og síðast tveggja ára nám á meistarastigi í Fjölskyldufræði.

Hvað er fjölskyldufræði?

Þegar fjölskyldufræðin eru notuð í ráðgjöf er oft talað um fjölskyldumeðferð eða fjölskylduráðgjöf. Aðferðirnar innan fræðanna henta vel í ráðgjöf þar sem verið er að skoða samskiptamynstur og erfiðleika í samskiptum. Fræðin geta hjálpað öllum, einstaklingum og hópum og henta sérstaklega vel í vinnu með pörum og hjónum. Einnig er algengt að fólk leiti til fjölskyldufræðinga með vanda tengdan kjarnafjölskyldunni eða samskipti milli uppkominna barna og foreldra þeirra.

Grunnhugmyndafræði mín gengur út á að skoða samskipti milli einstaklinga hvort sem það er í parsambandi, fjölskyldu eða stærra samhengi. Þeirra vellíðan er höfð að leiðarljósi í allri meðferð. Þegar unnið er með einstaklingum eða pörum er oft skoðað samskiptamynstur sem kemur úr uppeldinu eða hefur jafnvel fylgt fólki í gegnum kynslóðirnar. Einnig er lögð áhersla á að skoða þær tilfinningar sem liggja að baki hegðun og samskipta. 

Þegar fólk kemur til mín skilgreinir það sína fjölskyldu og ekki er gerður neinn greinarmunur á tengslum milli einstaklinga, þið segið mér hverjir eru í fjölskyldunni og hver tengslin eru. Í mörgum tilfellum er horft lengra en bara til nánustu fjölskyldu, vinir og vinnuumhverfi geta haft áhrif og erfitt samskiptamynstur hefur mikil áhrif á allar aðstæður.

Hvernig er meðferðin?

Ef þú vilt bóka tíma í sambandsráðgjöf (pararáðgjöf, hjónabandsráðgjöf) eða fjölskylduráðgjöf mátt þú endilega senda mér póst. Mörg kjósa að útskýra hvað þau vilja fá út úr meðferðinni eða hver helsti vandinn er í tölvupóstinum eða jafnvel síma og þannig verður fyrsta koma oft mun markvissari. Fyrsta viðtal er alltaf 70 mínútur og lengd meðferðar fer eftir hverju og einu tilviki og einnig hversu langt líður á milli viðtala. 

LGBTQIA fáninn

Sambandsráðgjöf

Ef um pör er að ræða er áætlunin sú að báðir aðilar mæti saman í viðtöl en á meðferðartímanum getur komið upp sú staða að fólk komi í sitthvoru lagi í einstaka tíma. Samkomulag er um hvort tímarnir verði 50 eða 70 mínútur eftir fyrsta viðtal.

Í öllum tilfellum eru styrkleikar skoðaðir og þeir notaðir til að vinna með þann vanda sem fólk vill vinna með og finna lausnir á eins stuttum tíma og hægt er.